Íslenski boltinn

Toppliðin unnu - Mikilvægur sigur Fylkis

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Haukur Ingi Guðnason skoraði eitt og lagði upp tvö fyrir Fylki í dag.
Haukur Ingi Guðnason skoraði eitt og lagði upp tvö fyrir Fylki í dag. Mynd/Daníel

Keflavík og FH unnu í dag bæði sína leiki í Landsbankadeild karla og því enn mikil barátta framundan um Íslandsmeistaratitilinn.

Þá vann Fylkir 3-1 sigur á Grindavíkur á útivelli á sama tíma og KR vann 2-1 sigur á HK. Það þýðir að Fylkir er nú komið fjórum stigum frá HK og komið með nítján stig, rétt eins og Þróttur sem á leik til góða gegn botnliði ÍA á morgun.

Keflavík vann Fjölni í Grafarvoginum, 2-1, liðið hefur því leikið ellefu leiki í röð án taps en síðast tapaði Keflavík fyrir Fjölni á heimavelli þann 23. júní.

Leikur FH og Vals var lengi vel markalaus en eftir að FH komst yfir á 64. mínútu með marki Tryggva Guðmundssonar fylgdu tvö mörk til viðbótar í kjölfarið. FH vann því 3-0 öruggan sigur.

Þá vann Breiðablik 3-0 sigur á Fram en lesa má allt um gang leikjanna á miðstöð Boltavaktar Vísis og Fréttablaðsins þar sem fylgst var náið með leikjunum. Það má smella á hvern leik til að lesa nánar um gang leikjanna.

Keflavík er á toppnum með 43 stig og FH í öðru með 38 stig en á leik til góða.

KR er komið upp í fjórða sæti deildarinnar með 32 stig en Breiðablik er enn í sjötta sæti, nú með 30 stig. Það eru því ekki nema þrjú stig sem skilja að Val, Fram, KR og Breiðablik sem eru í 3.-6. sæti deildarinnar.

Grindavík og Fjölnir töpuðu bæði sínum leikjum í dag og eru í sjöunda og áttunda sæti deildarinnar með 24 og 22 stig. Þessi lið komast næst því að hafa að engu að keppa lengur í deildinni en þó eru þau ekki formlega sloppin við fallslaginn.

Þróttur og Fylkir eru nú í níunda og tíunda sæti deildarinnar með nítján stig en Þróttarar eiga leik til góða á morgun gegn ÍA.

HK er enn í ellefta sæti með fimmtán stig og getur ÍA komist upp í fjórtán stig með sigri á Þrótti á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×