Innlent

Til skammar að RÚV sé í fararbroddi með fjöldauppsagnir

RÚV
RÚV MYND/GVA

Starfsmannafundur var haldinn hjá Ríkisútvarpinu í dag þar sem m.a. var samþykkt ályktun. Björn Malmquist formaður starfsmannafélagsins segir að hátt í tvö hundruð manns hafi mætt á fundinn og mikill hugur hafi verið í fólki. Í ályktuninni segir að aðgerðir undafarinna daga séu alvarleg aðför að Ríkisútvarpinu en réttara væri að almannavaldið stæði vörð um stofnunin á erfiðum tímum.

Starfsfólk ríkisútvarpsins harmar einnig að fjársvelti og vanhugsuð stefna stjórnvalda og Alþingis hafi nú leitt til þess að skera verði niður um fimmtung með tilheyrandi fjöldauppsögnum.

„Tekjur Ríkisútvarpsins hafa hins vegar dregist saman og ríkið hefur ekki staðið við þjónusamning. Að auki stendur til að setja hömlur á auglýsingar í Ríkisútvarpinu. Verði hugmyndir um slíkt að veruleika, munu tekjur fyrirtækisins dragast saman um mörg hundruð milljónir með tilheyrandi samdrætti og uppsögnum tuga starfsmanna," segir í ályktuninni.

Þar segir ennfremur að Ríkisútvarpið sé opinbert hlutafélag í eigu ríkisins og það sé til skammar að það skuli vera í fararbroddi með fjöldauppsagnir þegar útlit er fyrir mesta atvinnuleysi í áratugi.

„Hvernig getur það mögulega samræmst hagsmunum almennings eða ríkissjóðs að segja upp ríkisstarfsmönnum, til þess eins að greiða þeim atvinnuleysisbætur? Sparnaðurinn er enginn þegar á heildina er litið, en skaði einstakra starfsmanna og Ríkisútvarpsins í heild er hins vegar gríðarlegur."

Starfsmenn Ríkisútvarpsins harma að æðstu stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki séð aðra leið en að segja upp fólki og skerða laun. Rétt væri að þeir litu í eigin barm og deildu kjörum með þeim sem undir þeim vinna. Ekki er hægt að réttlæta ofurlaun hjá almannaútvarpi í ríkiseigu á meðan fólk er rekið í sparnaðarskyni.

„Starfsmenn Ríkisútvarpsins krefjast þess að nýtilkynntar uppsagnir verði dregnar tafarlaust til baka. Þeir hafna allri skerðingu á kjörum og samningsbundnum réttindum, þ.m.t. flatri launalækkun. Sameiginlega bera Alþingi, ríkisstjórnin og æðstu stjórnendur Ríkisútvarpsins fulla ábyrgð á framtíð Ríkisútvarpsins."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×