Innlent

Vinna að efnahagsaðgerðum um helgina

Það mæðir mikið á Geir Haarde þessa dagana. Mynd/ Stöð 2.
Það mæðir mikið á Geir Haarde þessa dagana. Mynd/ Stöð 2.
Almennt er búist við að stjórnvöld í samvinnu við lífeyrissjóði, verkalýðshreyfingu og samtök atvinnulífsins og fleiri muni reyna að setja saman aðgerðarpakka í efnahagsmálum um helgina.

Ráðherrar í ríkisstjórninni funduðu með forystumönnum lífyerissjóðanna í gær til að ræða þann möguleika að sjóðirnir færi innistæður sínar í útlöndum til Íslands til að auka framboð á erlendum gjaldmiðlum í landinu. Íslenska lífeyrissjóðakerfið er talið vera það öflugasta í heimi og eiga sjóðirnir um 500 milljarða í sjóðum í útlöndum, eða álíka mikinn gjaldeyri og gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, segir í Morgunblaðinu í dag að fjármunir lífeyrissjóðanna yrðu ekki færðir til landsins til að bjarga áhættufjárfestum. Lífeyrissjóðirnir myndu krefjast ríkisábirgðar ef til kæmi. Þá munu stjórnvöld vinna að því að fá lán hjá erlendum Seðlabönkum og öðrum bankastofnunum.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, að þeir sem ábyrgð hafi axlað þurfi að taka stærri og veigameiri ákvarðanir um framtíð þjóðarinnar á færri klukkustundum en nokkru sinni fyrr, en það sé hægt. Við þessar aðgerðir þurfi einnig að móta framtíðarsýn og engum leynist að þar á Þorsteinn við mögulega aðild að Evrópusambandinu enda áréttar hann að við mótun framtíðarsýnarinnar verði allir til að mynda að geta treyst því að hagsmunir sjávarútvegsins verði ekki fyrir borð bornir þegar farvegur verði fundinn fyrir mótun framtíðarstefnu á þessu sviði






Fleiri fréttir

Sjá meira


×