Innlent

Ráðherra beitti sér ekki fyrir mildari framgöngu lögreglu

MYND/Stefán
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra beitti sér ekki sérstaklega í málum lögreglunnar í tengslum við mótmæli vörubílstjóra undanfarna daga. Þetta sagði hann á Alþingi í dag þegar hann svaraði fyrirspurn Helga Hjörvar, þingmanns Samfylkingarinnar.

Helgi vakti athyli á því að framganga lögreglu í mótmælunum hefði verið til fyrirmyndar, hún hefði sýnt festu en jafnframt umburðarlyndi. Það vekti hins vegar athygli að lögreglu hefði ekki alltaf borið gæfa til þess að sýna mótmælendum svo mikla virðingu og vísaði Helgi þar til framgöngu lögreglu gegn stóriðjuandstæðingum á Snorrabraut og á Austurlandi í fyrra. Þeir hefðu verið umsvifalaust handteknir.

Spurði hann dómsmálaráðherra hvort hann hefði beitt sér fyrir mildari framgöngu lögreglu og hvort hér væri um stefnubreytingu væri að ræða og mótmælendum yrði framvegis sýnt það umburðarlyndi sem þeim bæri í lýðræðisríki.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra steig í pontu og sagðist ekki hafa beitt sér gagnvart þessum málum tveimur. Hann teldi lögregluna fullfæra um taka ákvarðanir í þessum málum.

Ólík framkvæmd laga

Helgi Hjörvar benti á að hann væri að inna ráðherra eftir skýringum á ólíkri framkvæmd laga frá ári til árs. Ef ekki hefði verið um stefnubreytingu að ræða hvort ráðherra gæti skýrt þessa ólíku framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum. Það væri grundvallaratriði að það væri fyrirsjáanleiki í réttarríkinu og borgarar ættu að geta gengið að stefnu stjórnvalda vísri.

Björn Bjarnason kom aftur í pontu og sagði að hann teldi að lögregla hefði báðum tilvikum farið eftir lögum.

Við þetta má bæta að samþykkt var á Alþingi í dag að óska eftir skýrslu frá dómsmálaráðherra um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum við Kárahnjúka og á Reyðarfirði á árunum 2005-2007 en þar var andóf gegn stóriðjuuppbyggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×