Fótbolti

Hiddink datt á Kristinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guus Hiddink fagnar sigrinum í gær. Kristinn Jakobsson sést í bakgrunninum.
Guus Hiddink fagnar sigrinum í gær. Kristinn Jakobsson sést í bakgrunninum. Nordic Photos / AFP

Það kom upp neyðarlegt atvik eftir að Rússar komust í 1-0 gegn Svíum á EM 2008 í gær er Guus Hiddink, landsliðsþjálfari Rússa, datt á Kristinn Jakobsson fjórða dómara leiksins.

„Þetta var nokkuð skonduð atvik,“ sagði Kristinn í samtali við Vísi í dag. Sjónvarpsupptökur virtust sýna að Hiddink hafi hrint Kristni. Atvikið átti sér stað eftir að Rússar skoruðu fyrsta mark leiksin og Andrei Arshavin kom upp að hliðarlínunni til að ræða við Hiddink.

„Ég fór upp að þeim þar sem þeir stóðu á vallarhelmingi Svía og það var ekki hægt að hefja leikinn. Hiddink sneri sér þá við og datt hreinlega á mig. Hann baðst innilegrar afsökunar á því, líka eftir leik. Það var enginn illur ásetningur þarna að baki, langt í frá.“

Kristinn segir að þetta hafi verið ógleymanleg reynsla en allir þeir sem störfuðu sem fjórði dómari í riðlakeppninni halda nú til síns heima ásamt fjórum öðrum dómaratríóum sem fengu ekki frekari verkefni í keppninni.

„Þetta er búið að vera frábært frá a til ö. Mér hefur gengið vel og engu breytt þótt þetta séu stórir kallar sem hafa verið í kringum mann. Það er sami undirbúningurinn fyrir þessa leiki og alla aðra,“ sagði Kristinn.

„Ég bind auðvitað miklar vonir við að þetta geri það að verkum að ég fái stærri verkefni. Þeir hafa líka gefið mér undir fótinn með að þetta sé næsta skref í þessum tröppugangi sem ég hef verið í og vonandi fæ ég enn stærri verkefni í framtíðinni.“

Hann mun nú einbeita sér að íslensku deildinni þar til forkeppni Meistaradeildarinnar fer af stað í sumar og í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×