Innlent

Bjarni hugðist vega að Valgerði Sverris úr launsátri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Harðarson þingmaður.
Bjarni Harðarson þingmaður.

Bjarni Harðarson þingmaður Framsóknarflokksins og bóksali hugðist senda aðstoðarmanni sínum, Ármanni Inga Sigurðssyni, tölvubréf nú undir kvöld, með beiðni um að senda fjölmiðlamönnum afrit af bréfi til Valgerðar Sverrisdóttur flokksystur hans.

Skilaboðin til aðstoðarmannsins voru einföld:


„sæll
hér er merkilegt bréf
ertu til í að búa til anymous netfang og senda þetta úr því á alla fjölmiðla,
-b.,"

segir í bréfinu.

Í harðorðu bréfinu, sem undirritað er af tveimur framsóknarmönnum, er Valgerður minnt á ábyrgð hennar við einkavæðingu bankanna. Þá eru gerðar miklar athugasemdir við afstöðu Valgerðar gagnvart Evrópusambandinu.

Bjarni hagaði málum ekki betur til en svo að bréfið, sem átti einungis að fara á aðstoðarmann Bjarna og þaðan frá ótilgreindu netfangi yfir á fjölmiðla, fór beint á alla helstu fjölmiðla landsins.

Í tölvupósti sem Bjarni sendi síðan sömu fjölmiðlum segir:

„ágætu fjölmiðlamenn
mér urðu á lítilsháttar mistök áðan við sendingu á bréfi til aðstoðarmanns míns
bréf þetta sem átti aðeins að fara milli okkar tveggja lenti óvart á hópsendingarlista fjölmiðla
ég vil því vinsamlegast fara þess á leit við ykkur að þið eyðið þessu bréfi og nýtið hvorki efni þess né þessi mistök mín sem urðu til þess að bréfið rataði ranglega í ykkar hendur á nokkurn hátt í miðlum ykkar
með kærri kveðju og fyrirfram þökk
-b."

En tilraun Bjarna til að vega að flokksystur sinni úr launsátri misheppnaðist illa.

Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að lesa harðort bréf til Valgerðar.


Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.