Fótbolti

Ótrúlegur sigur Tyrkja í vítaspyrnukeppni

Elvar Geir Magnússon skrifar
Semih Senturk jafnaði fyrir Tyrki þegar öll nótt virtist úti.
Semih Senturk jafnaði fyrir Tyrki þegar öll nótt virtist úti.

Tyrkland komst í undanúrslit Evrópumótsins í kvöld þegar liðið vann hreint ótrúlegan sigur á Króatíu. Það virðast einhver æðri máttarvöld vera í liði með Tyrkjum sem komust í átta liða úrslit með ótrúlegum sigri á Tékklandi.

Staðan eftir venjulegan leiktíma var markalaus. Króatía fékk mun hættulegri færi sem ekki nýttust og því var gripið til framlengingar. Allt virtist stefna í vítaspyrnukeppni þegar Króatar komust yfir.

Ivan Klasnic skoraði á 119. mínútu leiksins eftir mistök Rüstu í marki Tyrkja. Króatar fögnuðu gífurlega enda allt útlit fyrir að þeir væru á leið áfram. Tyrkir hafa hinsvegar níu líf og náðu að jafna þegar mínúta var komin framyfir venjulegan leiktíma í framlengingu.

Semih Senturk skoraði það mark. Stemningin var á örskots-stundu búin að færast yfir til tyrkneska liðsins og það kom bersýnilega í ljós í vítaspyrnukeppninni. Króatar voru ekki eins yfirvegaðir og Tyrkirnir og tvö skot þeirra fóru framhjá í vítaspyrnukeppninni.

Ótrúleg rússibanareið fyrir Slaven Bilic og hans lærisveina í Króatíu en þeir eru á leið heim. Tyrkirnir munu hinsvegar mæta Þýskalandi í undanúrslitum mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×