Innlent

Meta þörfina fyrir fjármálaþjónustumiðstöð

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, segir að fullur kraftur sé í vinnu ráðuneyta, stofnanna og ýmissa samstarfsaðila til að samræma og tryggja ráðgjöf og þjónustu við þá sem þurfa á slíku að halda vegna þeirra fjármálaþrenginga sem nú ganga yfir.

,,Allar okkar velferðarstofnanir eru til þjónustu reiðubúnar og vel meðvitaðar um stöðuna. Í dag höfum við verið að meta þörfina fyrir viðbótarþjónustu og kortleggja sértæk úrræði sem mögulega verður ráðist í á næstu dögum. Þjónustustofnanir okkar hafa í dag verið að sinna sínu hlutverki mjög vel og virðast anna þessu vel. Næstu skref verða tekin síðar í dag eða morgun," segir Jóhanna.

Að sögn Jóhönnu voru strax í gær forstöðumenn helstu stofnanna sem heyra undir félags- og tryggingamálaráðuneytið kallaðir til og kraftar þeirra virkjaðir. Þar á Jóhanna meðal annars við Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun, Barnaverndarstofu, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilinna og Íbúðalánasjóða.

,,Við vinnum áfram í samstarfi við þessar stofnanir og önnur ráðuneyti um það hvernig við aðlögum þjónustuna að þörfinni sem er víða í samfélaginu," segir Jóhanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×