Innlent

Mótmælendur farnir úr Seðlabankanum

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að allt sé með rólegasta móti í Seðlabankanum. Talsverður fjöldi mótmælenda kom sér fyrir í anddyri bankans seinni partinn í dag og neitaði að yfirgefa svæðið fyrr en seðlabankastjóri kæmi og talaði við hópinn.

„Það er allt búið og allir farnir. Við beittum engu nema viðræðum og ræddum á rólegu nótunum við fólkið, það fóru allir í góðu," segir Geir Jón en lögreglan var með talsverðan viðbúnað á staðnum.

Nokkur fjöldi lögreglumanna var fyrir utan bankann og eins var annar hópur sem meinaði fólkinu aðgang að bankanum, fyrir innan anddyrið.

„Þetta gekk ágætlega en við vorum bara með þann mannskap sem þarf hverju sinni, við metum það á hverjum tíma," segir Geir Jón.

Aðspurður hvort Davíð Oddsson seðlabankastjóri hafi látið sjá sig segir Geir Jón: „Nei, ætli hann hafi ekki bara verið farinn heim úr vinnunni."








Tengdar fréttir

Áhlaup á Seðlabankann - Varnarúða hótað

Rétt í þessu var gert áhlaup á Seðlabanka Íslands. Á annað hundrað manns eru við bygginguna og ruddust tugir þeirra inn í stofnunina. Hópurinn vill fá að ræða við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×