Innlent

Siv: Hneyksli hvernig Samfylkingin hegðar sér í eftirlaunamálinu

MYND/Anton

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í dag að það væri hneyksli hvernig Samfylkingin hefði hegðað sér varðandi hin umdeildu eftirlaunalög og kallaði eftir því að flokkurinn léti verkin tala.

Siv benti á í fyrirspurnartíma að fimm þingmenn Samfylkingarinnar hefðu í fyrra lagt fram frumvarp um að breyta lögum um eftirlaun æðstu embættismanna. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, hefði svo sagt í vor að hún vildi helst breyta lögunum fyrir slit á vorþingi. Ekkert hefði gerst en hins vegar hefði kastað tólfunum á dögunum þegar Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefði nýverið sagt að hann vildi breyta lögunum strax.

Sagðist Siv telja að það væri stefna allra flokka á þingi að breyta lögunum. Benti hún enn fremur á að stjórnin hefði 43 manna þingmeirihluta og spurði því Össur Skarphéðinsson, staðgengil utanríkisráðherra, hvers vegna ekki væri búið að breyta lögunum.

Össur Skarphéðinsson benti á að fregnir hefðu borist að því að reynt yrði að ná samstöðu um málið á þingi. Hann teldi það mikilvægt og það réðist meðal annars af afstöðu stjórnarandstöðunnar hvenær sú samstaða næðist. Þetta væri mál sem stjórnarmeirihlutinn hygðist ekki knýja fram í andstöðu við vilja stjórnarandstöðunnar. Þar með væri hann ekki að segja að stjórnarandstaðan væri á móti breytingunum en vinna þyrfti málið hratt og ná breiðri samstöðu. Benti hann á að Ingibjörg Sólrún hefði sagt nýverið að hún vænti þess að það gerðist fyrir jól.

Siv Friðleifsdóttir undraðist orð Össurar um að stjórnin vildi ekki knýja fram afstöðu stjórnarandstöðunnar í málinu. Benti Siv á að stjórnarandstaðan væri að bjóða fram krafta sína. Ítrekaði hún mikinn þingstyrk meirihlutans og spurði hvers vegna ekki væri búið að ná samstöðu um breytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×