Erlent

Uppbyggingin í Írak kostnaðarsamt klúður

Uppbygging Bandaríkjamanna í Írak misheppnaðist vegna þess að engin stofnun ríkisstjórnarinnar bar ábyrgð á henni. Deilur milli skriffinna, vaxandi ofbeldi og vanþekking á íröksku samfélagi höfðu einnig áhrif á að uppbyggingin klúðraðist. Þetta kemur fram í drögum að skýrslu um uppbygginguna sem gerð var fyrir Bandaríkjastjórn og dagblaðið New York Times birti í gær.

Í skýrslunni kemur fram að Bandaríkjastjórn hafi ekki verið nægilega vel undirbúin til að framkvæma þau verkefni sem uppbyggingin fól í sér. Verkefnið í heild hafi verið illa undirbúið og oft hafi stórar ákvarðanir verið teknar á mjög stuttum tíma. Dæmi er tekið af því að embættismanni hafi verið gefinn fjögurra klukkustunda frestur til að ákveða hversu mikið af vegum þyrfti að opna og laga. Mat þessa embættismanns hafi svo farið beint inn í áætlun um málið. Þá er sagt að bandarísk stjórnvöld hafi fyrir innrásina verið treg til að eyða peningum í uppbyggingu annars lands. 117 milljörðum hafi þó verið eytt síðan þá og þar af hafi 50 milljarðar komið beint úr vasa skattgreiðenda. Peningarnir hafi þó nánast aðeins farið í að lagfæra það sem var eyðilagt í innrásinni sjálfri.

Í skýrslunni segir Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra, að á mánuðunum eftir innrásina hafi sífellt verið gefnar rangar upplýsingar um fjölda í öryggissveitum. Tölurnar hafi verið ýktar um tutt-ugu þúsund manns í hverri viku.

Einnig kemur fram í skýrslunni að nú, fimm árum eftir innrásina í Írak, hafi stjórnvöld hvorki fastmótaða stefnu né getu til þess að takast á við svo stórt verkefni sem uppbyggingin sé.

Skýrslan er unnin af bandarískri eftirlitsstofnun með uppbygginginunni í Írak, sem leidd er af repúblikanum Stuart W. Bowen. Bowen hefur undanfarin fimm ár fylgst með uppbyggingunni í Írak. Skýrslan er byggð á um 500 nýjum viðtölum og yfir 600 rannsóknum sem hafa verið gerðar síðustu árin. Bowen vill ekki tjá sig um skýrsluna, sem á að kynna fyrir þingnefnd í byrjun febrúar á næsta ári.

George W. Bush, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, kom í óvænta heimsókn til Íraks í gær. Það verður væntanlega síðasta opinbera heimsókn hans þangað. Barack Obama hefur lofað að draga herlið Bandaríkjanna út úr landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×