Enski boltinn

Fjárfestingarfélag frá Dubai hættir við kaup á Charlton

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andy Reid er fyrrum leikmaður Charlton en hann leikur með Sunderland í dag.
Andy Reid er fyrrum leikmaður Charlton en hann leikur með Sunderland í dag. Nordic Photos / Getty Images

Enska B-deildarfélagið Charlton staðfesti í morgun að fjárfestingarfélagið Zabeel Investments frá Dubai hafi dregið til baka tilboð sitt um að kaupa félagið.

Þetta sama fyrirtæki hefur einnig verið orðað við yfirtöku á úrvalsdeildarfélagi Newcastle en núverandi eigandi félagsins, Mike Ashley, hefur í hyggju að selja það sem fyrst.

Eftir því sem fram kemur í yfirlýsingu frá Charlton hefur fjárfestingarfélagið í hyggju að einbeita sér frekar að sínum innanlandsmarkaði. En það var ekki eina ástæðan.

„Sú umræða sem hefur átt sér stað um erlent eignarhald enskra knattspyrnufélaga sem og slæmt efnahagsástand í Bretlandi hafði einnig áhrif á ákvörðun félagsins."

Fjárfestingarfélagið ítrekaði að það væri ekkert í gögnum Charlton sem hefði gefið þeim ástæðu til að fælast frá félaginu. Einnig var þeim orðrómi neitað að félagið hefði áhuga á að kaupa Everton.

Charlton sér fram á erfiða tíma þar sem það skuldar um 20 milljónir punda og fær á þessu ári sína síðustu greiðslu sem félög fá eftir að þau falla úr ensku úrvalsdeildinni. Charlton féll vorið 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×