Innlent

Vilhjálmur Bjarnason: Helst hægt að líkja þessu við Kúbudeiluna

Vihjálmur Bjarnason, formaður félags fjárfesta, segir stöðuna óljósa eins og staðan er í dag, í viðtali á Stöð 2. Hann bendir á að frumvarpið sem lagt var fyrir Alþingi í dag veiti ákveðnar heimildir en að það sé ekki lýsing á aðgerðum.

Það sem stendur upp úr að hans mati er það að Fjármálaeftirlitið fær víðtækar heimildir til þess að hafa afskipti af fjármálafyrirtækjum lendi þau í kröggum. „Hvernig þeim verður beitt veit ég ekkert um á þessari stundu og það getur enginn séð fyrir hvernig þessu lyktar."

Aðspurður hvort að atburðir dagsins hafi eytt óvissunni segir Vilhjálmur að tekin hafi verið ákvörðun um aðgerðir. „Það var óvissa um það þegar ég vaknaði í morgun," segir Vilhjálmur og bætti við að verulegra aðgerða sé þörf.

Vilhjálmur segist aldrei hafa upplifað annað eins ástand, helst sé hægt að lýsa ástandinu við Kúbudeiluna 1961 þegar heimurinn rambaði á barmi kjarnorkustríðs.

„Það mun taka nokkur ár fyrir okkur að vinna úr þessum vanda," segir Vilhjálmur en bendir jafnframt á að ríkissjóður sé ekki skuldsettur og því gæti ástandið verið verra.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×