Innlent

Álaborgari safnar handa Íslendingi í borginni

Jeppe Stephansen, 31 árs gamall íbúi í Álaborg í Danmörku, hefur hrundið af stað söfnun fyrir íslenskan vin sinn í borginni. Hefur Jeppe stofnað sérstaka Facebook-síðu sökum þessa undir heitinu "Red Bjarni" eða Björgum Bjarna.

Jeppe segir í samtali við Jyllands-Posten að vinur hans, Bjarni Thor Haraldsson, sé svo illa haldinn vegna fjármálakreppunnar á Íslandi að hann á ekki lengur fyrir öli og að hann þurfi að borða hafragraut í flest mál.

Bjarni Thor er stúdent í Álaborg og er á námslánum. Þau dugan engan veginn lengur fyrir framfærslu hans að því er fram kemur í Jyllands-Posten.

"Síðast þegar ég hitti vin minn Bjarna gat ég séð að hann svitnaði. Hann hefur ekki getað slappað af lengi vegna óvissu um framtíð sína," segir Jeppe.

Sjálfur segir Bjarni að hann sé hræður og mjög ánægður með þetta framtak Jeppe.

"Þetta er ánægjuleg og falleg hugsun sem sýnir að Danir eru gott og umhyggjusamt fólk," segir Bjarni Thor sem bætir því við að hann vildi þó heldur vinna og þéna peninga sjálfur eins og raunar flestir Íslendingar.

Hingað til hafa 23 skráð sig á "Björgum Bjarna" og hann hefur fengið 100 kr. (danskar) frá Jeppe svo hann geti a.m.k. fengið sér einn-tvo öllara með honum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×