Innlent

Maðurinn með ljáinn dæmdur

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt 19 ára karlmann í sex mánaða fangelsi fyrir ýmis brot, þar á meðal vopnalagabrot og fjársvik.

Samkvæmt ákæru hafði lögregla afskipti af manninum í desember í fyrra og fann í fórum hans vasahníf sem hægt var að nota sem hnúajárn, sveðju, tvo kasthnífa og ljá með 51 sentímetra löngu blaði sem búið var að gera handfang á með sellófani og heimatilbúið hulstur.

Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa reynt í félagi við annan mann að stela örbylgjuofni, mínútugrilli og ýmsu smálegu úr vinnuskúr trésmíðaverkstæðis en starfsmanni verkstæðisins tókst að koma í veg fyrir það. Enn fremur var manninum gefið að sök að hafa notað greiðslukort annars manns til þess að svíkja út vörur.

Maðurinn játaði þessi brot á sig en sagðist jafnframt fyrir dómi hafa snúið við blaðinu og komið reglu á líf sitt. Tók dómurinn tillit til þess og skilorðsbatt því refsinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×