Innlent

Farþegum fækkar á milli ára

Ef vel á að gera, þarf ríkið að leggja þrjú til fimm hundruð milljónir króna í ferðaiðnaðinn á ári, segir Erna Hauksdóttir, formaður Félags ferðaþjónustunnar. Í heild hefur farþegum sem fara um Leifsstöð fækkað um 36 prósent í nóvembermánuði miðað við sama tíma í fyrra.

Íslenskum ferðamönnum sem fara um Leifsstöð hefur hins vegar fækkað um að minnsta kosti fimmtíu prósent á sama tíma segir Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og skyldi engan undra eftir fall krónunnar, hrun bankanna og nú þegar horft er fram á 10% atvinnuleysi.

Síðustu ár hefur fjölgun farþega hingað til lands verið í kringum sjö til tíu prósent á ári. Farþegum fækkaði þó árin 2001 og 2002 eftir hryðjuverkaárásirnar á New York, en þau ár eru alger undanteking. Nú verður hins vegar breyting á. Farþegum um flugstöðina hefur í heild fækkað um tæp 36% í nóvember miðað við sama tíma í fyrra, úr 143 þúsund farþegum árið 2007 í 92 þúsund farþega nú. Farþegum til og frá Íslandi fækkaði um rúmlega 37% milli ára en farþegum sem millilenda hér á landi á leið yfir Norður-Atlantshafið fækkaði um tæp 25%. Erna leggur áherslu á að nú sé rétt tíminn til að kynna landið almennilega, rétt eins og gert var eftir hryðjuverkaárásirnar 2001.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×