Erlent

Flugmaður hafði ekki þjálfun til að lenda í þoku

Flugvél að gerðinni Bombardier 400.
Flugvél að gerðinni Bombardier 400.

Farþegum í flugvél á leið frá Bretlandi til Frakklands  brá í brún þegar flugstjórinn tilkynnti að mikil þoka væri á flugvellinum í París og hann hefði ekki nauðsynlega þjálfun til þess að lenda í þoku.

Umrædd vél var tveggja hreyfla sjötíu sæta skrúfuþota af gerðinni Bombardier 400. Hún var í eigu breska flugfélagsins Flybe.

Vélin var að fara  frá Cardiff til Parísar. Henni hafði þegar seinkað um þrjár klukkustundir í Cardiff vegna veðurs. Þegar hún fór í loftið var ágætis veður á Charles de Gaulle flugvelli.

Meðan hún var á leiðinni lagðist hinsvegar þykk þoka yfir flugvöllinn. Tuttugu mínútum fyrir lendingu tilkynnti flugstjórinn að hann hefði ekki tilskylda þjálfun til þess að lenda í þoku. Því yrði að snúa við.

Talskona flugfélagsins sagði að flugstjórinn hefði tekið hárrétta ákvörðun, enda hefði hann þrjátíu ára starfsreynslu.

Ástæðan fyrir því að flugstjóri með þrjátíu ára starfsreynslu mátti ekki lenda í þokunni var sú að hann hafði nýlega flust af Bombardier 300 vél yfir á Bombardier 400.

Nógu mikill munur er á þessum vélum til þess að flugmenn þurfa að ganga í gegnum sérstaka þjálfun við skiptin.

Mismunandi þjálfunarstig eru til lendingar í slæmu skyggni. Viðkomandi flugstjóri hafði þjálfunarstig númer fimm en þurfti þjálfunarstig númer tvö til þess að lenda í þokunni eins og hún var á Charles de Gaulle.

Það var því snúið aftur til Cardiff og beðið eftir að þokunni létti í París. Talsmaður breska loftferðaeftirlitsins sagði í samtali við Sky fréttastofuna að þetta væri mjög óvenjulegt tilfelli, en líklega ekkert einsdæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×