Lífið

Pétur Þór knúsaður eftir uppboðið

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
„Maður fór eiginlega bara í köku. Ég var afar þakklátur og hrærður," segir Pétur Þór Gunnarsson eigandi Gallerís Borgar, sem stóð um helgina fyrir fyrsta uppboði gallerísins í tíu ár á Hilton hóteli. Pétur stóð í málaferlum í tæp níu ár í Stóra málverkarfölsunarmálinu svokallaða, þar sem honum var gefið að sök að hafa falsað eða vísvitandi selt verk sem hann vissi að væru fölsuð. Hann hélt ávallt fram sakleysi sínu, og var að lokum sýknaður í Hæstarétti.

Pétur vissi því ekki hvernig viðtökurnar yrðu á uppboðinu, en allar áhyggjur reyndust óþarfar. Fullt var út úr dyrum, og dynjandi lófatak tók við í lok uppboðsins, og var uppboðshaldarinn kysstur og knúsaður í bak og fyrir. Pétur segist aldrei hafa séð neitt þessu líkt á uppboði áður, og hann hafi verið afar hrærður. Hann hafi þó haldið andlitinu, en hugsað um leið hlýlega til æðri máttarvalda, og þakkað guði fyrir viðtökurnar. „Maður væri tilfinningalega daufur ef þetta hefði ekki áhrif á mann. Allur þessi velvilji og hlýja var afar ánægjuleg," segir Pétur.

86 verk voru á skrá á uppboðinu. Dýrasta verk þess var abstrakt málverk eftir Kristján Davíðsson, sem var slegið á 3,9 milljónir. Pétur segir alltaf eitthvað um það á uppboðum að lágmarks verð fáist ekki fyrir verkin, og því seldust myndirnar ekki allar. Hann treystir sér ekki til að giska á hve háar fjárhæðir hafi skipt um hendur á uppboðinu, en segir heildarmat verkanna hafa hlaupið á tugum milljóna.

Listunnendur landsins virðast því ekki hafa læst veskjunum, þrátt kreppugrýluna. „Það hafa ekki allir tapað á hlutabréfunum, sumir hafa bara geymt peninginn undir kodda, og kaupa nú listaverk," segir Pétur. Hann segir þó að kreppan hafi vissulega áhrif á markaðinn. „Það má kannski orða það þannig að þetta sé frekar tími kaupenda en seljenda," segir Pétur. Fleiri verk séu í boði þegar kreppi að, og verðið sé um 10-20 prósentum lægra en það var í góðærinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.