Innlent

Nýir valdhafar í Bandaríkjunum geta orðið góðir vinir Íslendinga

Jón Hákon Halldórsson. skrifar

„Það hefur verið lögð á það áhersla núna á undanförnum vikum að við þurfum að styrkja okkar sess í veröldinni og okkar orðspor og afla okkar traustra og nýrra vina. Og ég held að þessi liðssveit sem er að komast til valda í Washington hafi alla burði til þess að verða vinir Íslendinga ef við höldum sjálf rétt á málum," segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, i samtali við Vísi.



Samskiptin geta aukist

Ólafur Ragnar segist eiga von á því að samskipti Íslendinga og Bandaríkjamanna geti aukist með tilkomu nýrra valdhafa í Hvíta húsinu. Obama og margt fólk í hans liðssveit sé þannig gert að það sé reiðubúið til að hlusta á hvað fólk hafi fram að færa og sé þannig líklegra að til að kalla fram opnari umræðu en verið hefur í Hvíta húsinu á undanförnum árum.

Ólafur Ragnar hefur átt mikil samskipti við Obama og helstu samstarfsmenn hans, einkum vegna sameiginlegs áhuga á nýtingu hreinna orkugjafa. Hann fundaði meðal annars með Obama fyrr á árinu. „Ég hef átt ítarlegar samræður við hann um yfirvofandi loftslagsbreytingar og hinar alþjóðlegu baráttu sem þarf að fara fram til að koma í veg fyrir þær og þá sértaklega hvernig árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku gæti nýst Bandaríkjunum við að gjörbreyta orkunotkun frá olíu og kolum til hreinna orkugjafa," segir Ólafur Ragnar.



Ólafur og Obama á góðri stund þegar forsetinn heimsótti Washington í mars á síðasta ári.MYNDRebecca Hammel
Hrein orka grundvallaratriði fyrir Obama

Ólafur Ragnar segir að Obama hafi gert það að einum af höfuðþáttum í sinni stefnu að breyta orkukerfi Bandaríkjanna og stuðla að orkubyltingu sem byggist á nýtingu hreinna orkugjafa. Bandaríkin hafi gríðarlega möguleika á sviði jarðhita sem hafi lítið verið nýttir enn sem komð er. Ólafur sagðist hafa látið Obama í té kynningabækling sem hafi verið tekinn saman í forsetaembættinu um framlag Íslands til þessa málaflokks. „Niðurstaðan varð sú að hann taldi kjörið að reynsla, tæknikunnátta og vísindaþekking íslendinga á þessu sviði yrði nýtt þegar Bandaríkin myndu með nýjum forseta ýta slíkri orkubyltingu í vör," segir Ólafur Ragnar.

Þá segist Ólafur Ragnar hafa átt samtöl við fjölmarga samherja Obama, meðal annars demókrata í öldungadeild og fulltrúadeild og ýmsa embættismenn sem hafi átt forystu um stefnumótun á sviði orkumála. „Þannig að ég er sannfærður um það að með nýrri ríkisstjórn í Bandaríkjunum og nýrri forystu verði leitað eftir því að tæknikunnátta og þekking og reynsla Íslendinga á þessu sviði muni verða nýtt," segir Ólafur Ragnar. Hann segir að Íslendingar verði að velta því fyrir sér hérna heima hvernig hægt sér að hagnýta þessa möguleika og ekki láta þá erfiðleika sem blasa við nú koma í veg fyrir að hægt sé að sækja aukna hagsæld í slíkt samstarf við Bandaríkin á sviði orkumála.

Munu vilja fræðast um efnahagshamfarirnar á Íslandi

Þá segist Ólafur hafa trú á því að bæði Obama og hans liðsmenn muni hafa áhuga á því að ræða reynslu Íslendinga af þeim hamförum sem hafi gengið yfir í fjármálakerfinu og hvernig lítið land eins og Ísland hafi orðið úti í þessu ölduróti og hvaða lærdóm megi að því draga í endurskipulagningu hins alþjóðlega fjármálakerfis hinna svokölluðu Bretton Woods stofnana. Ólafur segist telja að sá vinahópur sem Íslendingar eigi í þinginu og í hópi hinna nýju valdhópa sé þannig stefndur að hann hafi áhuga á því að hlusta á Íslendinga í þessum efnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×