Innlent

Vill greiða fyrir útflutningi bíla

MYND/GVA

Geir H. Haarde forsætisráðherra vill að greitt verði fyrir því að hægt verði að flytja úr landi bíla sem í ljós hefur komið að ekki er þörf fyrir í landinu. Þetta sagði hann í svari við fyrirspurn varaþingmannsins Sigríðar Andersen úr Sjálfstæðisflokknum.

Sigríður spurði forsætisráðherra, í fjarveru fjármálaráðherra, hvort til greina kæmi að endurskoða lög um vörugjald á ökutæki og lög um virðisaukaskatt í þeim tilgangi að veita heimild til endurgreiðslu vörugjalda og virðisaukaskatts við útflutning nýrra og nýlegra ökutækja. Í ljósi hinna gríðarlegu verðmæta sem lægju í bílaflota landsmanna væri ástæða til þess að leita allra leiða til þess að koma í veg fyrir að verðmæti færu forgörðum.

Geir H. Haarde forsætisráðherra svaraði því til að hér væri raunverulegt vandamál á ferðinni sem full ástæða væri til að leysa. Þegar efnahagsaðstæður hefðu breyst jafnskjótt og raun bæri vitni væri ljóst að ákvarðanir um innflutning á bifreiðum hefðu ekki reynst raunhæfar miðað við nýtt ástand.

Vísaði Geir til gamllar lagaheimildar sem hann sem fjármálaráðherra hefði komið inn. Hún kvæði á um að hægt væri að flytja notaða hópferðabíla úr landi með tiltekinni endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þetta væri fordæmi til þess að byggja á. Því ætti að greiða fyrir því að flytja aftur úr landi ökutæki sem ekki væri þörf fyrir í landinu og það þyrfti að gera með skattalegum aðferðum. Sagði Geir þó að könnun á slíkum aðgerðum væri í höndum fjármálaráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×