Innlent

Stjórnmálamenn missa tiltrú fólks

Stuðningur við ríkisstjórnina hefur hrunið og stjórnmálamenn virðast hafa misst tiltrú fólks, hvort sem þeir tilheyra stjórn eða stjórnarandstöðu. Aldrei hefur hlutfall þeirra sem ekki ætla að kjósa verið hærra. Þetta kemur fram í skoðanakönnum sem unnin var fyrir Stöð 2 í gær.

Ríkisstjórnin nýtur stuðnings 35 prósenta þeirra sem spurð voru hvort þau styddu ríkisstjórnina. 65 prósent svöruðu því neitandi.

Einn af hverjum tíu var óákveðinn og fjögur prósent aðpurðra vildi ekki svara. Ef tillit er tekið til þeirra við útreikning sagðist 30 prósent aðspurðra styðja ríkisstjórnina. 56 prósent svöruðu því neitandi.

Þetta fylgishrun er ekki undarlegt í ljósi atburða síðustu daga segir Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur.

Það sem við sjáumt gerast er að flokkarnir halda sínu fylgi að mestu þegar spurt er hvaða stjórnmálaflokk fólk myndi kjósa, en hér koma tíðindi. Meira en helmingur þeirra 800 sem tóku þátt í könnuninni tók ekki afstöðu. 21 prósent sagðist ekki mundu kjósa eða skila auðu. 26 prósent sögðust óákveðin og 7 prósent vildu ekki svara.

Annað harla undarlegt má lesa úr svörunum. 42 prósent kvenna segjast mundu kjósa Samfylkinguna á móti 21 prósenti karla. Þetta snýst nær algerlega við þegar litið er til fylgis Sjálfstæðisflokks. 40 prósent karla segjast mundu kjósa hann, 28 prósent kvenna.

Samfylkingin virðist því vera að breytast í kvennaflokk og Sjálfstæðisflokkur í karlaflokk.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×