Lífið

Offramboð af skallapoppurum fer illa með tónleikahaldara

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

„Það er búið að blóðmjólka þennan markað og rúmlega það," segir Ísleifur Þórhallsson tónleikahaldari hjá Concert.

Meðalaldur erlendra tónlistamanna sem sækja Ísland heim þetta árið er í hærra lagi. Tónleikum þeirra John Fogherty, Bob Dylan og Johnny Logan er lokið, en framundan eru með annars James Blunt, Eric Clapton, Whitesnake og líklega Paul Simon, þó vangaveltur hafi verið uppi um að það þurfi að aflýsa tónleikum hans vegna dræmrar aðsóknar. James Blunt er klárlega sá yngsti í hópnum, en flestir hinna eru á sjötugsaldri og áttu sitt blómaskeið á sjöunda og áttunda áratugnum.

Ísleifur segir tónleikahaldara hafa lært það í gegnum tíðina að gömlu brýnin trekki að og fátt gangi jafn vel í landann. Nú sé þó að verða komið gott.

„Þetta er náttúrulega offramboð fyrir sama hópinn. Ég held að flestir tónleikahaldarar muni hugsa sig tvisvar um áður en þeir bóka aftur svona gamlan rokkhund." segir Ísleifur. Hann býst ekki við að mikið verði um erlenda tónleika á næstunni þegar menn eru búnir að melta þennan bita.

„Þetta er bara ekkert að ganga neitt æðislega vel. Það er mjög dýrt að gera þetta og mikil áhætta og það þarf að selja rosalega vel, og það vantar aðeins upp á það þessa dagana," segir Ísleifur, og tekur sem dæmi að Concert hafi í besta falli sloppið á núlli frá Dylan tónleikunum. Hann bætir við að sala miða á flesta tónleika hafi verið undir væntingum, nema þá helst hjá Clapton, og að sjálfsögðu unglambinu í hópnum, James Blunt, sem mokar út miðum.

„Við þurfum að fara að bjóða upp á eitthvað annað en gamla kalla."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.