Erlent

Sex fórust og tólf slösuðust

Þessi maður dreif sig niður stiga slökkviliðsins á nærbuxunum einum saman í brunanum í Osló.
Þessi maður dreif sig niður stiga slökkviliðsins á nærbuxunum einum saman í brunanum í Osló. MYND/nordicphotos/afp
Sex manns fórust og tólf slösuðust í miklum eldsvoða sem varð í fimm hæða fjölbýlishúsi við Urtegata í Ósló snemma í gær.

Að sögn lögreglunnar í Ósló fékk ein manneskja alvarlega reykeitrun og lá hún þungt haldin á sjúkrahúsi í gær. 33 manneskjur voru fluttar á brott úr byggingunni og tók það slökkviliðið tvær klukkustundir að ráða niðurlögum eldsins.

Einhverju fólki var bjargað með stigum eftir að það hafði klifrað upp á þak hússins. Einnig sátu sumir í gluggunum. Ekki er vitað hvað olli eldsvoðanum og hefur lögreglan ekki útilokað að um íkveikju hafi verið að ræða.

Húsið var byggt árið 1902 og samkvæmt íbúum byggingarinnar var aðeins einn inngangur opinn í byggingunni. Þar kom eldurinn upp og voru íbúarnir því bjargarlausir þar sem aðrir neyðarútgangar voru læstir, að þeirra sögn. Einnig kvörtuðu íbúarnir yfir því að hafa aldrei heyrt brunavarnarkerfið fara í gang.

Olav Thon Gruppen, eigandi byggingarinnar, sagði í samtali við heimasíðu Aftenposten, að brunavarnir hafi verið nýjar í húsinu og brunaeftirlitið hafi ekkert fundið athugavert við þær við hefðbundna skoðun á síðasta ári.

72 manneskjur hafa látist í eldsvoðum í Noregi á þessu ári. Sjö þeirra fórust í bruna í Drammen í síðasta mánuði. Í fyrra létust 74 í eldsvoðum í landinu, sem er hæsta tala látinna til þessa í landinu. -fb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×