Innlent

Mikilvægt að rannsókn á peningamarkaðssjóðum verði hraðað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhann Hafstein lögmaður.
Jóhann Hafstein lögmaður.
ERGO lögmenn hafa til skoðunar fjölmörg mál þeirra sjóðsfélaga sem áttu hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum bankanna og eru að kanna réttarstöðu þeirra.

Eins og kunnugt er voru peningamarkaðssjóðir viðskiptabankanna leystir upp í síðustu viku og innistæður greiddar inn á innlánsreikninga Sjóðseigendur fengu þó einungis hluta af peningum sínum til baka.

Jóhann H. Hafstein, lögmaður hjá ERGO lögmönnum, telur líklegt að dómstólar muni eiga síðasta orðið í þessum efnum, enda hafi bankarnir slitið sjóðunum án fyrirheita um frekari greiðslur. Jóhann bendir sérstaklega á að ekki séu til lög um hópmálsóknir, en til skoðunar komi þó sameiginleg málsókn á grundvelli úrræða í einkamálalögum um svokallaða samlagsaðild tveggja eða fleiri aðila til að sækja mál í félagi.

„Ég tel mikilvægt að rannsókn málsins verði hraðað eins og kostur er," segir Jóhann. „Það getur skipt sköpum varðandi skoðun á atriðum sem varða fjárfestingar sjóðanna, hvort og þá með hvaða hætti eignastaða sjóðanna tók breytingum í aðdraganda bankakreppunnar og með hvaða hætti undirliggjandi eignir voru verðmetnar við útgreiðslu úr sjóðnum." Þá bendir Jóhann á að það hvíli skylda á bönkum eða rekstrarfélögum sjóðanna að veita umræddar upplýsingar.

Þá sé einnig til skoðunar hjá lögmannsstofunni gegn hverjum kröfur í slíkum málum skuli beinast. „Það ríkir mikil óvissa um hvort eignir séu á móti hugsanlegum bótakröfum í búum gömlu bankanna eða hvort rekstrarfélög sjóðanna hafi bolmagn til að greiða hugsanlegar bætur," segir Jóhann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×