Fótbolti

Bölvun 22. júní létt og heimsmeistararnir úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Iker Casillas varði tvívegis í vítaspyrnukeppninni og var hetja Spánverja í leiknum.
Iker Casillas varði tvívegis í vítaspyrnukeppninni og var hetja Spánverja í leiknum. Nordic Photos / AFP

Spánverjar eru komnir áfram í undanúrslit EM 2008 eftir sigur á heimsmeisturum Ítala í vítaspyrnukeppni eftir markalausan og bragðdaufan leik.

Spánverjar hafa þrívegis dottið úr leik á stórmóti í knattspyrnu þann 22. júní. Í öll skiptin eftir vítaspyrnukeppni í fjórðungsúrslitinum.

En í dag varð breyting þar á og því má segja að bölvun þessa dags hafi verið létt fyrir spænska landsliðið.

Iker Casillas varði tvívegis í vítaspyrnukeppninni og Gianluigi Buffon einu sinni. Það var svo Cesc Fabregas sem skoraði sigurspyrnu keppninnar og tryggði þar með sínum mönnum sigur í leiknum en hann hafði komið inn á sem varamaður í leiknum.

Þar með eru heimsmeistararnir úr leik en síðast þegar að Spán vann sigur á Ítalíu í leik á stórmóti var á Ólympíuleikunum í Antwerpen árið 1920.

Ítalir voru án Gennaro Gattuso og Andrea Pirlo sem voru báðir í banni en þeir Alberto Aquilani og Massimo Ambrosini tóku stöðu þeirra í byrjunarliðinu.

Spánverjar stilltu upp sama liði og vann sigur á Rússlandi og Svíþjóð í fyrstu tveimur leikjum riðlakeppninnar. Þetta þýddi að Cesc Fabregas mátti sætta sig við að sitja á beknum.

Fyrri hálfleikur var afar tíðindalítill hvað marktækifæri varðar en leikurinn var þó harður og nóg af tæklingum og aukaspyrnum. Spánverjar gerðu tvívegis tilkall til vítaspyrnu í hálfleik, í bæði skiptin eftir brot Fabio Grosso, en varð ekki af ósk sinni.

Spánverjar sóttu í sig veðrið eftir því sem á leið og áttu nokkrar marktilraunir. Þá hættulegustu átti David Silva en skot hans utan vítateigs fór naumlega fram hjá marki Ítalanna.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað en Spánverjar voru þó meira í sókn en þeir ítölsku.

Þó var það Mauro Camoranesi sem komst næst því að skora er skot hans var varið af Iker Casillas á marklínu. Kollegi hans í ítalska liðinu, Gianluigi Buffon, komst þó nálægt því að missa varinn bolta í eigið mark. Marcos Senna átti skot að marki sem Buffon varði örugglega en missti svo boltann sem rann frá honum en hafnaði í stönginni, Buffon til mikillar sælu.

Luca Toni hefur ekki átt góðu gengi að fagna á mótinu og það sýndi sig hvað best undir lok venjulegs leiktíma er hann rændi Fabio Grosso upplögðu færi með vonlausri tilraun til að skora með bakfallsspyrnu. Það var einnig dæmigert fyrir leikinn.

Staðan því markalaus eftir venjulegan leiktíma og í þriðja sinn í fjórðungsúrslitunum er framlengt.

Framlengingin hófst með miklum látum og hvort lið fékk sitt færi en án þess þó að ná að skora. Eftir það datt leikurinn aftur niður og því ekkert um annað að ræða en að láta úrslit leiksins ráðast í vítaspyrnukeppni.

Gangur vítaspyrnukeppninnar (Spánverjar byrjuðu):

1-0 David Villa skoraði.

1-1 Fabio Grosso skoraði.

2-1 Santi Cazorla skoraði.

Iker Casillas varði frá Daniele De Rossi.

3-1 Marcos Senna skoraði.

3-2 Mauro Camoranesi skoraði.

Gianluigi Buffon varði frá Dani Güiza.

Iker Casillas varði frá Antonio Di Natale.

4-2 Cesc Fabregas skoraði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×