Innlent

Helmingur stuðningsmanna Samfylkingar styðja ríkisstjórnina

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, er formaður Samfylkingarinnar.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, er formaður Samfylkingarinnar.

52,5% stuðningsmanna Samfylkingarinnar styðja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hlutfallið var 62,2% í október. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Markaðs- og miðlarannsókna, MMR.

Í október sögðust 45,2% aðspurðra styðja ríkisstjórnina en í dag styðja 34,5% stjórnina. Tveir-þriðju eða ríflega 65,5% þeirra sem tóku afstöðu styðja ekki núverandi ríkisstjórn. 96,8% stuðningsmanna Sjálfstæðiflokksins styðja stjórnina.

VG stærstir - Fjórðungur styður Sjálfstæðisflokkinn

Þegar fylgi við stjórnmálaflokkanna er skoðað kemur í ljóst að nærri 8% segjast vilja kjósa aðra flokka en buðu fram í kosningunum 2007. Fylgi Framsóknarflokksins minnkar mikið milli kannana og Vinstri grænir njóta mikils fylgis.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 25,7% sem er tveim prósentustigum lægra en það mældist í október en fylgi Samfylkingarinnar og Vinstri grænna helst næsta óbreytt. 27, 1% segjast styðja Samfylkinguna og 30% VG.

Framókn með 2,5% stuðning á höfuðborgarsvæðinu

Fylgi Framsóknarflokksins fellur um nærri helming frá síðustu könnun og mælist nú 4,9%. Sé fylgi Framsóknarflokksins skoðað út frá búsetu kemur í ljós að flokkurinn mælist með 2,5% fylgi á höfuðborgarsvæðinu en 9,2% á landsbyggðinni. Fylgi Frjálslyndra mælist nærri óbreytt í 3% og fylgi Íslandshreyfingar 1,6%.

Könnunin er síma- og netkönnun og var hún framkvæmd dagana 2. til 5. dessember. Hún náði til fólks á aldrinum 18 til 67 ára úr þjóðskrá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×