Innlent

Vill að Alþingi hafi forystu um hvítbók

Geir H. Haarde forsætisráðherra vill að Alþingi hafi ákveðna forystu um rannsókn á hruni bankanna og segist munu beita sér fyrir því í samstarfi við þingflokka og forseta Alþingis. Þetta kom fram í svari ráðherrans við fyrirpurn Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri - grænna, á Alþingi í dag.

Steingrímur innti ráðherra eftir því hvar á vegi rannsókn á hruni fjármálakerfisins væri stödd. Talað hefði verið um hvítbækur en síðan hefði ekki gerst. Almenningur gerðist æ órólegri og mikill skortur væri á upplýsingum. Almenningur hefði þá óþægilegu tilfinningu að framkvæmdavaldið ætlaði að rannsaka sig sjálft. Spurði Steingrímur hvort ekki þyrfti að koma til kasta Alþingis og hvort flokkarnir þyrftu ekki að ná samkomulagi um undirbúning rannsóknar, annaðhvort með því að setja lög eða koma þessu í annan farveg. Ekki væri hægt að ýta þessu á undan sér.

Forsætisráðherra sagðist geta tekið undir meginsjónarmið Steingríms og benti á að hann sjálfur hefði boðað hvítbók. Hann hefð rætt þessi mál við forseta Alþingis og á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Geir taldi eðlilegt að Alþingi hefði þarna ákveðna forystu og myndi beita sér fyrir því. Vildi Geir með að koma þessu máli í farveg sem ekki yrði deilt um. Velt yrði við hverjum steini og til þess þyrfti að fá einstaklinga sem allir gætu treyst. Þá þyrfti hugsanlega að leita til sérfræðinga erlendis. Enginn áhugi væri á að tefja máli en það þyrfti að undirbúa vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×