Innlent

Sektir fyrir að láta ekki skoða ökutæki taka gildi eftir áramót

MYND/Anton

Þeir sem vanrækja það að fara með ökutæki í skoðun á réttum tíma gætu þurft að greiða 15 þúsund króna sekt eftir áramót þegar ný ákvæði í umferðarlögum taka gildi. Umferðarstofa vekur athygli á þessu í tilkynningu.

Þetta þýðir að þeir sem hafa vanrækt að fara með ökutæki sitt til skoðunar í október í ár þurfa að greiða umrædda upphæð. Þó er hægt að lækka gjaldið um allt að helming verði ökutækið skoðað innan tiltekins frests eftir að það er lagt á. Einnig má tvöfalda gjaldið verði það ekki greitt við almenna skoðun eða endurskoðun. Þannig getur gjaldið orðið allt að 30 þúsund. Umráðamenn ökutækja hafa tvo mánuði upp á að hlaupa frá tilgreindum skoðunarmánuði áður en gjaldið er lagt á.

Með þessari nýbreytni hyggjast samgönguyfirvöld reyna að sporna við alvarlegum umferðarslysum en mörg slík hafa orðið á undanförnum árum sem rekja má til ástands ökutækja. „Að jafnaði eru u.þ.b. 20 þúsund ökutæki í umferð sem ekki hafa verið færð til skoðunar á tilskildum tíma og í einhverjum tilfellum eru á ferð ökutæki sem segja má að séu stórhættuleg vegna ástands þeirra,“ segir Umferðarstofa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×