Enski boltinn

Leikmenn Portsmouth sendir á skólabekk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ha ... hvað segirðu, Harry?
Ha ... hvað segirðu, Harry? Nordic Photos / Getty Images

Portsmouth hefur ákveðið að sumir erlendra leikmanna félagsins skuli fara á enskunámskeið þar sem í ljós hefur komið að ekki allir skilja fyrirmæli Harry Redknapp knattspyrnustjóra.

Redknapp er frá austurhluta London þar sem hin svokallaða Cockney-mállýska ræður ríkjum. Þeir sem ekki tala ensku sem móðurmál finnst oft erfitt að ráða í mállýskuna.

Nemendunum verður einnig kennt að getað tjáð sig við bæjarbúa í Portsmouth sem tala svo allt aðra mállýsku en Redknapp.

„Talin var þörf fyrir námsskeiðið þar sem að margir leikmanna og eiginkvenna þeirra áttu erfitt með að tjá sig eðlilega í daglegu lífi í bænum," sagði talsmaður málaskólans þar sem námsskeiðið verður haldið.

„Það er svo auðvitað nauðsynlegt fyrir leikmenn að skilja fyrirmæli þjálfarans á vellinum," bætti hún við en sérstök áhersla verður lögð á orðatiltæki úr heimi knattspyrnunnar.

Hermann Hreiðarsson er á mála hjá Portsmouth en afar ólíklegt verður að teljast að hann þurfi að sitja námsskeiðið þar sem hann hefur verið atvinnumaður í Englandi í áratug, þar af í Portsmouth undanfarna átján mánuði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×