Innlent

Fimm þúsund lítrar láku úr olíubíl

Frá Eskifirði.
Frá Eskifirði.

Talið er að fimm þúsund lítrar af svartolíu hafi lekið úr olíubíl sem valt á veginum um Hólmaháls milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar um hádegisbil í dag.

Að sögn lögreglunnar á Eskifirði virðist sem olíubíllinn hafi lent út í vegaröxl og farið ofan í ræsi fjallsmegin og oltið við það. Slökkvilið og lögregla voru kvödd á vettvang og vinna þau að því ásamt mönnum á stórvirkum vinnuvélum að hefta mengun.

Lögregla segir að um 12 þúsund lítrar af svartolíu hafi verið í bílnum og láku um fimm þúsund út. Fljótt tókst að koma í veg fyrir lekann og segir lögregla engin vatnsból í hættu vegna hans.

Bílstjóri olíubílsins var fluttur á heilbrigðisstofnunina á Eskifirði til rannsóknar en meiðsl hans munu hafa verið minni háttar. Lögregla og slökkvilið vinna nú að því að koma bílnum á réttan kjöl en vegurinn um Hólmaháls verður lokaður á meðan á því stendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×