Innlent

Tvær milljónir í bætur eftir vinnuslys

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Túnfót ehf. til þess að greiða manni sem slasaðist við þrif í kjúklingasláturhúsi fyrirtækisins á Hellu árið 2003 tæpar tvær milljónir króna auk vaxta. Maðurinn var að klofa yfir lágan vegg í sláturhúsinu þegar hann rann til á mottu þannig að af hlaust 20 prósent örorka.

Í munnlegri skýrslu mannsins fyrir dómi kom fram að stefnandi hafi verið í venjubundinni eftirlitsferð um húsið og verið að taka út þrif starfsmanns. Hefði hann verið kominn með hægri fót yfir þröskuldinn þegar plastmottan rann af stað. Hefði hann borist með henni, en misst jafnvægið og lent á skógrind, en kastast þaðan í gólfið.

Stefnandi kvaðst hafa leitað til læknis daginn eftir óhappið, enda hefði það átt sér stað að kvöldlagi. Hefði hann látið yfirmann sinn vita af því, en ekki tilkynnt það forsvarsmönnum stefnda. Taldi hann víst að þeir hefðu átt að vita af því þar sem hann gekk með hönd í fatla um nokkurt skeið. Sérstaklega aðspurður sagðist stefnandi oft hafa kvartað yfir því við sláturhússtjórann og sinn yfirmann að plastmottan væri laus á gólfinu og þvældist um gólfið.

Stefndi hafnaði því að slys stefnanda verði rakið til hættulegra og saknæmra aðstæðna á slysstað, að skort hafi á leiðbeiningar um hvernig farið skyldi yfir umræddan þröskuld. Dómurinn komst hins vegar að því að stefndi skyldi 2/3 hluta þeirrar fjárhæðar sem stefnandi krafðist og er stefndi því dæmdur til að greiða 1.918.526 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum frá 20. desember 2003 til 25. apríl 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×