Innlent

Klukkan á Lækjartorgi snýr aftur

Frá Lækjartorgi.
Frá Lækjartorgi. MYND/www.rvk.is

Klukkan á Lækjartorgi er eitt af þekktari kennileitum Reykjavíkur. Hún var tekin niður í byrjun nóvember og sett í viðgerð eftir að ekið var á klukkuna í sumar með þeim afleiðingum að hún stöðvaðist.

Nú er klukkan komin á sinn gamla stað, ný máluð og með gangverkið í lagi. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar. Í upphafi var áætlað að viðgerðin tæki um tvær vikur en bilunin var meiri að umfangi en búist var við.

„Þegar farið var að rífa burtu skemmdirnar sem klukkan varð fyrir við ákeyrsluna í sumar kom í ljós að ekki var auðvelt að gera við þær vegna ryðs og þurfti því að endursmíða meira en í fyrstu var talið," segir Hilmar Svavarsson, hjá Kiwanis-klúbbnum Kötlu sem sér um rekstur og viðhald klukkunnar, á vef Reykjavíkurborgar.

Klukkan færð til viðgerðar í nóvember.

Bilunin í sumar er ekki sú fyrsta í sögu klukkunnar. Tvisvar hefur þurft að endursmíða hana að miklu leyti frá því Kiwanis-klúbburinn tók við rekstrinum fyrir 28 árum og vorið 2007 eyðilagðist móðurklukkan í brunanum í Lækjargötu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×