Lífið

Silfurvélin á leiðinni með landsliðið

Flugfreyjur Icelandair munu skarta landsliðsbúningnum í tilefni dagsins.
Flugfreyjur Icelandair munu skarta landsliðsbúningnum í tilefni dagsins. MYND/Vilhelm

Silfurvélin svokallaða er nú á leið til landsins með landsliðið íslands í handbolta innanborðs. Áhöfnin um borð í vélinni sem flytur handboltahetjurnar okkar til landsins síðar í dag er ekki í sínum hefðbundnu einkennisbúningum flugfreyja og flugþjóna, heldur í gömlum landsliðsbúningum. Flugstjórinn er Bjarni Frostason, en hann er fyrrverandi landsliðsmarkvörður. Liðið kemur frá Frankfurt og er áætluð lending í Keflavík klukkan hálf fjögur.

„Strákarnir okkar" fá síðan silfurkort Vildarklúbbs Icelandair að gjöf frá flugfélaginu sem er á meðal helstu styrktaraðila landsliðsins.

„Á leiðinni til Reykjavíkur verður mynduð heiðursfylking yfir Straumsvíkinni. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar og DC-3 vél Þristavinafélagsins, Páll Sveinsson, munu fylkja sér um Boeing 757 þotuna og fylgja strákunum loka mínúturnar inn til lendingar. Flogið verður yfir höfuðborgarsvæðið," segir í tilkynningu frá Icelandair.

„Við Flugskýli 1 á Reykjavíkurflugvelli, Hótel Loftleiða megin, verður tekið á móti landsliðinu og fylgdarliði. Afmarkað svæði verður fyrir nánustu aðstandendur og fjölmiðla. Unnið verður eftir skipulagi sem hefur verið á flugdögum á Reykjavíkurflugvelli. Svæði fyrir áhorfendur verður á flugstæðinu fyrir norðan flugskýli 1, vestan megin við Hótel Loftleiðir, fyrir innan flugvallagirðingu. Að gefnu tilefni er tekið fram að ekki er gert ráð fyrir því að almenningur blandist landsliðsmönnum og fjölskyldum þeirra á flugvellinum," segir einnig í tilkynningunni.

Birkir Hólm Guðnason framkvæmdastjóri Icelandair vill hvetja Íslendinga til þess að fjölmenna á þjóðhátíðina í Miðborginni í dag. „Ég vil hvetja fólk til þess að mæta á skipulögð hátíðarhöld við Skólavörðustíg og Arnarhól. Fólk mun geta fylgst með hópfluginu og lendingunni víða af höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem hyggjast koma niður að Reykjavíkurflugvelli skulu þó hafa í huga að umferðarþungi verður væntanlega mikill og tafir þá eftir því. Icelandair hefur stutt íslenska handboltalandsliðið í tæpa hálfa öld og við erum stolt af því að flytja strákana heim."














Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.