Innlent

Óljóst hverjar skuldbindingar Íslendinga gagnvart Hollendingum eru

Kristján Kristjánsson upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins.
Kristján Kristjánsson upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins.
Það náðist samkomulag um það við Hollendinga að Íslendingar myndu standa við skuldbindingar sínar gagnvart hollenskum eigendum innstæðna á IceSave-reikningum Landsbankans. Hins vegar hefur ekki náðst samkomulag um það hverjar skuldbindingar Íslendinga eru. Þannig skýrir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins, þær deilur sem enn standa yfir á milli íslenskra og hollenskra stjórnvalda vegna Icesave.

Sagði að málið væri leyst

Í fréttatilkynningu sem forsætisráðuneytið gaf út þann 11. október síðastliðinn segir að eftir uppbyggilegar viðræður hafi hollensk og íslensk stjórnvöld náð samkomulagi um lausn mála hollenskra eigenda innstæðna á IceSave-reikningum Landsbankans. Fjármálaráðherra Hollands, Wouter J. Bos, og fjármálaráðherra Íslands, Árni M. Mathiesen, hafi tilkynnt þetta.

Í yfirlýsingunni er haft eftir Wouter J. Bos, fjármálaráðherra Hollendinga, að hann sé einkum ánægður með að staða hollenskra innstæðueigenda væri nú skýr. Árni M. Mathiesen hafi bætt við að aðalatriðið væri að málið væri nú leyst.

Samkomulagið kveði á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur. Hollenska ríkisstjórnin muni veita Íslandi lán til að standa undir þessum greiðslum og hollenski seðlabankinn mun annist afgreiðslu krafna innstæðueigendanna.

Gengur þvert á yfirlýsingar Wouter Bos

Það skaut því skökku við þegar vefútgáfa breska blaðsins Financial Times hafði eftir Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, að ríkisstjórn Hollands væri andvíg láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til Íslands nema leyst yrði úr ágreiningi vegna Icesave-reikninganna fyrst.

Kristján segir hins vegar að enn hafi ekki náðst samkomulag um það hverjar skuldbindingar íslenska ríkisins vegna Icesave reikninganna eru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×