Innlent

ESB-aðild og svo evra í stað einhliða upptöku evru

Valgerður Sverrisdóttir.
Valgerður Sverrisdóttir.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, telur að Íslendingar eigi að taka upp evruna í framhaldi af aðild að Evrópusambandinu fremur en að taka evruna einhliða upp líkt og lagt hefur verið til.

Mikið hefur verið rætt um þann möguleika um helgina að taka evru einhliða upp í stað þess að taka lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum þjóðum til þess að styrkja gengi krónunnar. Ársæll Valfells og Heiðar Már Guðjónsson viðruðu þessa hugmynd í Fréttablaðinu um helgina og vísuðu meðal annars til Svartfjallalands sem fordæmis.

Valgerður vakti athygli á þessari leið í pistli fyrir um þremur árum. Hún segir að í greininni hafi hún haldið því fram að krónan ætti sér ekki langa framtíð og spurningin væri hvað ætti að koma í staðinn. „Ég nefndi nokkra kosti í stöðunni, einhliða upptöku evrunnar, aðild að ESB og efnahags- og myntbandalaginu og samninga við ESB um evru án aðildar. Ég er nú þeirrar skoðunar að ef við ætlum að taka upp evru, sem ég er sannfærð um að við eigum að gera, þá gerist það ekki nema með aðild að Evrópusambandinu," segir Valgerður sem gagnrýnir að menn hjakki í sama farinu í þessu máli.

Hún telur að það þurfi yfirlýsingu um aðildarviðræður við ESB við núverandi aðstæður en bendir á að það yrði svo í höndum þjóðarinnar að ákveða hvort gengið yrði í sambandið. Hún segist verða vör við vaxandi stuðning við þessa leið. „Það eru fleiri og fleir að sjá að þarf að fara þessa leið. Þegar við erum í þessari erfiðu stöðu þarf að hugsa praktískt," segir Valgerður um vanda þjóðarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×