Innlent

Losun við Kársnes stöðvuð

Bæjarráð Kópavogs samþykkti á fundi síðdegis í dag að fresta losun umframefna á landfyllingu við Kársnes uns niðurstaða liggur fyrir um skipulag svæðisins.

Undanfarið hafa verið kynntar tillögur um breytingar á skipulagi á Kársnesi þar sem gert er ráð fyrir því að landfylling verði stækkuð umfram gildandi skipulag.

Í tilkynningu frá Kópavogsbæ er fullyrt að losunarstarfsemi á Kársnesi sé innan ramma laga og skipulags. ,,Þar sem lögmæti losunar á Kársnesi hefur verið dregið í efa þykir rétt að árétta að starfsemin er hvorki háð framkvæmdaleyfi né mati á umhverfisáhrifum. Nýjustu mælingar sýna jafnframt að stærð landfyllingar sé innan marka gildandi aðalskipulags," segir í tilkynningunni.

Engu að síður er það ákvörðun bæjarráðs Kópavogs að leyfa ekki frekari losun á landfyllingunni fyrr en niðurstaða er fengin um skipulag svæðisins. Aftur á móti verður lokið við frágang á svæðinu og gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til að verja núverandi kant gegn ágangi sjávar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×