Innlent

Þrír flokkar hafa ekki skilað ársreikningum fyrir árið 2007

Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn eiga allir eftir að skila ársreikningum sínum fyrir árið 2007 til Ríkisendurskoðunar.

Lög um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðendur tóku gildi 1. janúar 2007. Þau fela í sér að stjórnmálaflokkum er skylt að skila ársreikningum sínum til ríkisendurskoðanda. Frestur til að skila inn reikningunum hefur þrívegis verið framlengdur, seinast til 1. október.

Samkvæmt upplýsingum hjá Ríkisendurskoðun eru ársreikningarnir hjá flokkunum þremur væntanlegir. Vonir standa til þess að á næsta ári þegar komin verður reynsla á ferlið muni reikningar flokkanna berast embættinu fyrr.

Íslandshreyfingin skilaði fyrstur flokka ársreikningum sínum til ríkisendurskoðanda, því næst Samfylkingin og nýverið skiluðu Vinstri grænir inn sínum ársreikningum.

Birtar verða opinberlega samandregnar upplýsingar úr reikningunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×