Innlent

Hæstaréttardómarar fagna rannsókn á Hafskipsmáli

Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands

Tveir dómarar Hæstaréttar, þeir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen hvetja Valtý Sigurðsson, ríkissakskóknara til að verða við beiðni um opinbera rannsókn á hafskipsmálinu. Ríkissaksóknari fékk þessa beiðni í síðustu viku frá lögmanninum Ragnari Aðalsteinssyni fyrir hönd fyrrverandi stjórnenda Hafskips með Björgólf Guðmundsson í broddi fylkingar.

Hafskipsmenn telja að nýjar upplýsingar séu komnar fram sem bendi til þess að Gunnlaugur og Markús hafi komið óeðlilega að Hafskipsmálinu en skipafélagið varð gjaldþrota árið 1985. Gunnlaugur Claessen var á þessum tíma ríkislögmaður en Markús Sigurbjörnsson borgarfógeti í skiptarétti.

Í dag kemur út bókin Hafskip - í skotlínu eftir sagnfræðinginn Björn Jón Bragason. Í henni eru dregin fram gögn sem aldrei hafa birst áður og benda, að mati höfundar, á afar gagnrýnisverða framgöngu þáverandi skiptaráðenda og ríkislögmanns. Beiðnin um opinbera rannsókn er byggð á þessum gögnum.

Garðar Garðarsson hrl. sendi í dag frá sér yfirlýsingu fyrir hönd umbjóðenda sinna, Hæstaréttardómaranna Markúsar og Gunnlaugs. Þar segir að þeir uni ekki þeim ásökunum sem á þá eru bornar og hvetja til þess að Ríkissaksóknari verði við beiðninni um opinbera rannsókn.

Fjallað er ítarlega um þessar nýju upplýsignar um Hafskipsmálið í Kompási í kvöld.

Á sínum tíma voru sex Hafskipsmenn, þeirra á meðal Björgólfur Guðmundsson, hnepptir í gæsluvarðhald vegan málsins. Þeir hafa haldið því fram að Hafskip hafi verið knúið að ósekju í gjaldþrot.

Kompás fjallar ítarlega um málið í kvöld

 











 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×