Lífið

Segir prófessor í húmor alls ekki þurfa að hafa húmor

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Elliott Oring.
Elliott Oring. MYND/California State University

„Stutta svarið er að ég fæst við ýmsar hliðar kímnigáfu í mannlegu samfélagi, allt frá venjulegum bröndurum upp í kímni í samræðum, spaugilegar aðstæður og svo framvegis," segir Elliott Oring, prófessor í húmor við Háskóla Íslands.

Hér er ef til vill farið frjálslega með titilinn en Oring er í raun prófessor í mannfræði við Ríkisháskólann í Kaliforníu og er sendikennari á Fulbright-styrk við Háskóla Íslands nú á haustönn. Námskeiðin sem Oring kennir eru tvö og tilheyra bæði námi í þjóðfræði við félags- og mannvísindadeild. Annars vegar er þar um að ræða námskeiðið Að skrifa grein í fagtímarit en hins vegar námskeiðið Húmor sem hér er til tals.

„Í námskeiðinu reynum við að greina gamansemi í mannlegum samfélögum og skoða í hvaða þætti hún greinist, hvernig samfélagið upplifir gamansemi á mismunandi tímum og hverjar helstu birtingarmyndir hennar eru," útskýrir Oring og bætir því við að húmor í þjóðfræðilegu samhengi hafi lengi verið honum áhugamál og hann þekki ýmsar íslenskar þjóðsögur og þá gamansemi sem í þeim lifir.

Oring segist að öðru leyti ekki vera mikið inni í íslenskri gamansemi sérstaklega en vonir hans standi til þess að lokaritgerðir nemenda hans verði honum uppspretta fróðleiks þar um.

Freistandi er að lokum að velta því fyrir sér hvort prófessor í húmor reiti af sér brandara öllum stundum í kennslu sinni eða hvort maður í slíkri stöðu þurfi yfirleitt að hafa húmor. Oring vefst ekki tunga um tönn þegar spurning þar að lútandi er borin upp: „Nei nei, það er alls ekki nauðsynlegt. Ekki frekar en að einhver sem kennir námskeið um geðklofa þurfi að vera geðklofi."

 














Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.