Enski boltinn

Hull skellti Arsenal á Emirates

Geovanni skoraði sannkallað draumamark á Emirates í dag
Geovanni skoraði sannkallað draumamark á Emirates í dag AFP

Nýliðar Hull City halda áfram að koma á óvart í ensku úrvalsdeildinni og í dag vann liðið ævintýralegan sigur á Arsenal á Emirates 2-1.

Leikurinn markaði 12 ára afmæli Arsene Wenger í knattspyrnustjórastólnum hjá Arsenal, en Frakkinn vill eflaust gleyma þessum leik sem fyrst.

Arsenal komst reyndar yfir í leiknum með sjálfsmarki Paul McShane í upphafi síðari hálfleiks, þegar hann mokaði skoti Cesc Fabregas í eigið net.

Á fjögurra mínútna kafla um miðbik síðari hálfleik komst öskubuskuliðið hinsvegar yfir í leiknum með tveimur mörkum.

Jöfnunarmarkið frá Brasilíumanninum Geovanni var stórkostlegt, þrumuskot með hægri fæti efst í markhornið. Markið kom á 62. mínútu og aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Daniel Cousin sigurmarkið með skalla eftir hornspyrnu.

Arsenal gerði harða hríð að marki gestanna á lokamínútunum og átti meðal annars skot í slá, en stuðningsmenn liðsins áttu ekki til orð þegar flautað var af og ljóst að litla liðið hafði farið með sigur af hólmi.

Hull er nú komið í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar eftir þriðja sigurinn á leiktíðinni og er tveimur sætum fyrir neðan Arsenal.

Þess má geta að nýliðarnir hafa þegar halað inn fleiri stig en Derby náði í alla leiktíðina í fyrra þegar liðið féll úr úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×