Innlent

Gasmaðurinn brást hárrétt við

Breki Logason skrifar
Lögregluþjónninn hefur vakið mikla athygli fyrir vasklega framgöngu sína í mótmælunum.
Lögregluþjónninn hefur vakið mikla athygli fyrir vasklega framgöngu sína í mótmælunum.

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir lögreglumanninn sem æpti Gas!, Gas!, Gas! í mótmælunum við Rauðavatn hafa brugðist hárrétt við. Þegar Maze gasi er beitt ber að tilkynna það með hvössum og beittum hætti.

Lögregluþjónninn ungi vakti mikla athygli fyrir vasklega framgöngu sína og er meðal annars búið að prenta boli og útbúa hringitón með orðum lögregluþjónsins.

Geir Jón segir að á þessum tímapunkti hafi verið búið að tilkynna að Maze gasi yrði beitt ef fólk færi ekki. „Þegar ljóst var að fólkið ætlaði ekki fara þá ber að vara það við með mjög hvössum og beittum hætti vegna þess að það virkar stuðandi á fólk," segir Geir Jón.

Geir Jón segir að lögreglumenn séu þjálfaðir til þess að koma skilaboðum skýrt til skila og í þessu tilfelli hafi lögregluþjónninn brugðist hárrétt við.

„Sumir halda að hann hafi misst stjórn á skapi sínu sem var alls ekki. Þó þeir hafi tveir verið að gasa þá er bara annar sem kallar. Fólk á þá að vita að nú sé annaðhvort að fara eða fá á sig gas."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×