Innlent

Ekkert díoxínkjöt á Íslandi

Ekkert írskt, díoxínmengað svínakjöt er til sölu hér á landi samkvæmt athugun Matvælastofnunar.

Stofnunin sendi frá sér tilkynningu vegna frétta af greiningu efnisins í kjöti á Írlandi, sem verið er að innkalla í 21 landi vegna mengunarinnar.

Þar segir að stofnuninni hafi borist tilkynning frá RASFF viðvörunarkerfi Evrópu (Rapid Alert System for Food and Feed) síðastliðinn laugardag um að magn díoxíns og díoxín líkra PCB efna í írsku svínakjöti hefði mælst langt yfir leyfilegum mörkum. Þá hafi hafist vinna við að kanna innflutning á svínakjöti framleiddu eftir fyrsta september, en það eru þær vörur sem írsk stjórnvöld hafa innkallað.

„Samkvæmt gögnum sem MAST hefur nú aflað hefur ekkert svínakjöt borist til landsins frá Írlandi fyrir utan 24 kíló af matreiddu beikoni, en talið er víst að umrætt beikon hafi verið framleitt fyrir 1. september," segir í tilkynningunni.

Hér á landi hafa verið settar reglur um leyfileg hámarksgildi aðskotaefna og þar með díoxíns í matvælum og eru sömu reglur í gildi hjá Evrópusambandinu. Díoxín og díoxínlík PCB efni (polychlorinated biphenyl) eru þrávirk efni sem talin eru geta valdið krabbameini og öðrum eituráhrifum. Þau verða til sem aukaafurð við ýmsa framleiðslu og myndast einnig í náttúrunni. Þau brotna hægt niður og finnast því víða

í umhverfinu og í litlu magni í ýmsum matvælum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×