Íslenski boltinn

Félagaskiptaglugginn lokaður

Elvar Geir Magnússon skrifar

Samkvæmt reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga, eru félagaskipti innanlands ekki heimil frá og með 1. ágúst til og með 20. febrúar.

Félagaskiptaglugganum lokaði því nú á miðnætti. Mikið var um félagaskipta á lokadegi félagaskiptagluggans þó ekki hafi verið mikið um stórtíðindi.

Guðmundur Atli Steinþórsson gekk í raðir KR. Þessi 21. árs sókndjarfi leikmaður fékk samningi sínum við Fjarðabyggð rift eftir að Magni Fannberg var látinn taka pokann sinn á dögunum. Hann samdi út leiktíðina.

Hvöt á Blönduósi fékk tvo leikmenn frá úrvalsdeildarliðum. Jens Elvar Sævarsson kemur á láni frá Þrótti út leiktíðina og einnig Calum Þór Bett sem kemur frá HK.

Markvörðurinn Ólafur Þór Gunnarsson er aftur kominn með skipti í Þrótt og verður til taks á lokasprettinum í Landsbankadeildinni.

Hörður Sigurjón Bjarnason er kominn aftur í Breiðablik en hann fékk leikheimild með Kópavogsliðinu í dag.

Skúli Jónsson var lánaður í Víking og þá fékk Leiknir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frá Fram svo eitthvað sé nefnt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×