Innlent

Segir verulegan árangur hafa náðst í kynferðisbrotamálum gegn börnum

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra

Barnahús hefur svo sannarlega sannað gildi sitt á þeim tíu árum sem það hefur starfað. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra í ávarpi sínu, í tilefni af 10 ára afmæli Barnahúss á laugardag. Barnahús var stofnað 1. nóvember 1998 að frumkvæði Barnaverndastofu. Hlutverk þess er að sinna málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi.

„Ég tel ótvírætt að verulegur árangur hafi náðst við rannsókn og meðferð þessara alvarlegu mála. Fagleg umræða hefur aukist og faglegar kröfur sömuleiðis. Starfsemi Barnahúss hefur átt ríkan þátt í því að draga umræðu um þessi alvarlegu mál upp á yfirborðið. Eins er hafið yfir vafa að með þessu úrræði hafa fleiri þolendur og aðstandendur þolenda séð leið til þess að stíga út úr myrkrinu og leita sér aðstoðar en ella hefðu gert," sagði Jóhanna.

Barnahús hefur vakið athygli víða

Hún sagði að starfsemi Barnahúss á Íslandi hafi fljótt vakið athygli út fyrir landsteinana og hróður þess borist víða. Um það vitni ýmsar viðurkenningar sem Barnahúsi hafi hlotnast erlendis, fjöldi erlendra gesta sem þar hafi komið til að kynna sér starfsemina og síðast en ekki síst stofnun Barnahúsa í Svíþjóð og Noregi með íslenska Barnahúsið að beinni fyrirmynd.

„Einn mikilvægra þátta í starfsemi Barnahúss eru læknisskoðanir sem þar fara fram í sérútbúinni aðstöðu sem þar er fyrir hendi, því öll umgjörð hússins miðast við að hægt sé að leysa á einum stað þau verkefni sem vinna þarf við meðferð mála til að draga eins og kostur er úr álagi þolendanna," sagði Jóhanna.






Tengdar fréttir

Barnahús er 10 ára í dag

Það eru á bilinu fimm til sex prósent líkur á því að barn sem fæðist í dag þurfi að leita sér aðstoðar Barnahúss. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem kynntar eru í dag í tilefni af því að 10 ár eru liðin frá því að Barnahús var sett á stofn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×