Innlent

Breytingar á þjónustu í flugi Icelandair

Miklar breytingar verða á þjónustu í flugi hjá Icelandair á næstu mánuðum. Nýjum og rýmri sætum með sjónvarpsskjám verður komið fyrir í öllum vélum félagsins, skipt verður um einkennisbúninga og nýtt hljóðkerfi verður sett upp. Flugfargjöld hækka ekki við breytingarnar heldur er félagið að bregðast við alþjóðlegri samkeppni.

Frétta og blaðamönnum var boðið í kynnisferð í íslensku þotuna Boeing757 sem var tekin í yfirhalningu á dögunum. Ný og rýmri sæti voru sett í vélina og á hverju sætisbaki er sjónvarpsskjár. Icelandair hefur fjárfest í nýju skemmtikerfi þar sem hægt er að velja um fjölbreytt fræðsluefni og kvikmyndir.

Þá hafa þekktir tónlistarmenn verið fengnir til að semja tónlist í vélarnar með skírskotun í íslenska náttúru. Nýir einkennisbúningar flugþjóna og flugmanna eru væntanlegir á næstu vikum og sér Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður um hönnun þeirra.

Halldór Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Icelandair segir samkeppnina hjá alþjóðlegum flugfélögum meiri en nokkru sinni og yfirhalningin sé liður í að marka Icelandair sérstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×