Erlent

Flestir deyja úr hita í Bandaríkjunum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Dauðakort Háskólans í Suður-Karólínu er ekkert jólakort.
Dauðakort Háskólans í Suður-Karólínu er ekkert jólakort. MYND/Reuters

Hitabylgjur verða mun fleiri Bandaríkjamönnum að bana en jarðskjálftar og fellibylir samkvæmt nýju „dauðakorti" vísindamanna.

„Eld gerið þér sveinar eða hvárt skal nú búa til seyðis?" spurði Skarphéðinn þegar kveikt var í Bergþórshvoli. Hann endaði ævi sína þar þegar hitna tók í kolunum og svo vill til að 19,6 prósent Bandaríkjamanna deyja einmitt úr hita. Það er að segja 19,6 prósent þeirra sem deyja af völdum náttúruhamfara.

Þetta er niðurstaða vísindamanna við Háskólann í Suður-Karólínu sem nú hafa komið sér upp eins konar dauðakorti yfir Bandaríkin þegar flestir dunda sér við jólakortin. Hljómar ekki huggulega en niðurstöðurnar eru sumar hverjar merkilegar. Til dæmis farast innan við fimm prósent samanlagt í jarðskjálftum, skógareldum og fellibyljum sem þó eru títt fréttaefni þar vestra en hitabylgjur skipa toppsætið og skammt undan er andstæða þeirra en vetrarhörkur verða rúmlega 18 prósentum að bana.

Þá er Kalifornía öruggasta ríkið þrátt fyrir tíða jarðskjálfta en flestir látast í náttúruhamförum í Suðurríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×