Fótbolti

Howard Webb sendur heim

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Howard Webb.
Howard Webb. Nordic Photos / AFP
Enski dómarinn Howard Webb hefur verið sendur heim frá EM í Austurríki og Sviss og fær ekki að dæma meira í keppninni.

Webb og aðstoðardómarar hans tveir voru eitt fjögurra dómaratríóa sem fengu ekki verkefni í útsláttarkeppninni. Hin tríóin sem voru send heim komu frá Austurríki, Hollandi og Noregi.

Webb dæmdi viðureign Póllands og Austurríkis þar sem síðarnefnda liðinu var dæmd vítaspyrna í blálok leiksins. Ivica Vastic skoraði úr vítinu og gerði þar með nánast út um vonir Pólverja á mótinu.

Vítið dæmdi hann eftir að varnarmaður Póllands togaði niður andstæðing sinn í teignum. Dómurinn þótti umdeildur og sagði Leo Beenhakker, landsliðsþjálfari Póllands, að hann væri ekki í samræmi við dómgæslu á mótinu. Forsætisráðherra Póllands sagði að hann hefði viljað drepa Webb eftir leikinn.

En fulltrúar Knattspyrnusambands Evrópu sögðu dóminn réttan og Webb stóð sjálfur við hann nokkrum dögum síðar. Hann var hins vegar sá eftir því að hafa leyft marki Pólverja í leiknum að standa því um rangstæðu hefði verið að ræða.

Webb dæmdi einnig viðureign Spánverja og Grikkja sem skipti engu máli.

Slóvakinn Lubos Michel og Herbert Fandel frá Þýskalandi þykja vera meðal bestu dómara heims um þessar mundir. Michel dæmir viðureign Hollands og Rússland á laugardaginn kemur og Fandel verður dómari leiks Spánar og Ítalíu.

Peter Fröjfeldt dæmdi leik Portúgals og Þýskalands í kvöld og þá dæmir Roberto Roosetti leik Króatíu og Tyrklands annað kvöld.

Þeir dómarar sem enn koma til greina í undanúrslitunum og sjálfum úrslitunum eru auk hinna fjögurra þeir Massimo Busacca frá Sviss, Frank De Bleeckere frá Belgíu, Kyros Vassaras frá Grikklandi og Manuel Enriue Mejuto González frá Spáni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×