Lífið

Miðar á ABBA sýningu rjúka út

„Við héldum að þetta færi rólega af stað þar sem sex vikur eru í tónleikana en það er greinilega mikill áhugi fyrir hendi," segir Eyþór Guðjónsson, skipuleggjandi The ABBA show með hljómsveitinni Arrival.

Miðasala á viðburðinn fór af stað með miklum krafti í morgun á midi.is. Um 1.500 miðar seldust á skömmum tíma sem þýðir að einungis um 500 miðar eru eftir á tónleikana sem fram fara í Vodafone-höllinni 8. nóvember.

„Við höfum heyrt af hópum fólks sem skipulagt hafa uppákomur fyrir og eftir tónleikana til þess að gera daginn enn skemmtilegri. Sumir ætla að mæta í ABBA-búningunum þannig að það má búast við skemmtilegri uppákomu," segir Eyþór, sem býst allt eins við því að töluvert verði af spandexi í Vodafone höllinni þennan dag.

Hljómsveitin Arrival hefur ferðast með ABBA-sýninguna í þrettán ár, eða lengur en sjálf hljómsveitin ABBA starfaði, og komið fram í yfir 20 löndum. Sýningin hefur notið mikilla vinsælda og hafa ABBA-aðdáendaklúbbar víða um heim kosið hana bestu ABBA-sýningu allra tíma. Í Bandaríkjunum seljast 8.000-20.000 miðar á hverja sýningu. Sumir gagnrýnendur ganga svo langt að segja Arrival betri en upprunalegu ABBA-hljómsveitina.

Hljómsveitina Arrival, sem er nefnd eftir samnefndri metsöluplötu ABBA, skipa 12 tónlistarmenn og er allur tónlistarflutningur fluttur „lifandi". Mikið er lagt í búninga en Arrival er eina hljómsveit í heimi sem hefur leyfi til að klæðast nákvæmum eftirlíkingum af búningum ABBA. Arrival vinnur náið með höfuðpaurum ABBA, þeim Björn og Benny, og er þessa dagana að gefa út áður óútgefið ABBA-lag sem ber heitið Just a notion.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.