Innlent

Reyndi að slá lögreglumenn með rörtöng

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 26 ára karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa hótað lögreglumönnum og slegið til þeirra með rörtöng í tvígang þegar lögregla hafði afskipti af honum.

Lögregla hafði fengið tilkynningu um að maðurinn hefði gengið berserksgang á heimili móður sinnar og hugðist handsama hann. Hann brást hins vegar hinn versti við og sótti rörtöngina og hótaði lögreglumönnunum. Því beitti lögregla varnarúða til að yfirbuga hann.

Maðurinn neitaði sök og sagðist ekki hafa ógnað lögreglumönnunum. Á það lagði dómurinn ekki trúnað. Segir í dómnum að ákærði hefði getað valdið lögreglumönnunum miklum skaða hefði hann náð að slá þá með rörtönginni. Maðurinn á að baki nokkuð langan sakaferil og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×