Íslenski boltinn

Þórir: Sum félög eiga í vandræðum

Þórir Hákonarson.
Þórir Hákonarson.

Blóðugur niðurskurður er framundan í íþróttahreyfingunni. Framkvæmdastjóri KSÍ sagði í fréttum Stöðvar 2 að sum íþróttafélög ættu í vandræðum en KSÍ standi ágætlega og eigi engin hlutabréf.

Veltan í kringum félögin tólf í Landsbankadeild karla er talin hátt í 1 milljarður króna. Um 40 erlendir leikmenn léku í deildinni í sumar og sumir íslenskir leikmenn sagðir á ráðherralaunum. Það er því ljóst að niðurskurður er framundan.

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði við Stöð 2 að ekki hefði komið upp á borð til sambandsins að einhverjir leikmenn hefðu ekki fengið greidd laun. „Við vitum hinsvegar af því að einhver félög hafi lent í vandræðum," sagði Þórir.

Hann segist vona að þau vandræði séu þó ekki það mikil að þau leysist ekki á næstu vikum eða mánuðum. „Þetta ástand hefur gríðarleg áhrif á okkar kostnað enda mikið af honum í erlendri mynt, þá er ég að tala um kostnað í kringum landsliðin og fleira slíkt," sagði Þórir. „Á móti kemur að við fáum hluta af okkar tekjum í erlendri mynt. Það jafnast því að einhverju leyti út."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×